Logo Decor

Vöðvahnútar í legi- Myoma

Vöðvahnútar – Myoma- Fibroma

Vöðvahnútar í legi eru mjög algengir og allt að 40-75% kvenna fá slíka hnúta. Í flestum tilfellum eru þessir litlu, góðkynja fyrirferðir saklausar og þurfa enga meðferð.

Stundum geta þessir hnútar aftur á móti orðið talsvert stórir og valda þá oftar vandamálum. Litlir hnútar geta einnig valdið vandamálum eftir því hvar þeir eru staðsettir í leginu.

Hvað eru vöðvahnútar?

Vöðvahnútur er góðkynja ( ekki krabbamein) fyrirferð inni í legvöðvanum. Hnútur getur verið einn eða margir. Þegar svona hnútar verða of stórir, of margir eða byrja að ýta á aðlæg líffæri geta konur fundið fyrir margvíslegum einkennum

  • Kviðverkir
  • Útþaninn kviður
  • Óþægindi við samfarir
  • Miklar blæðingar
  • Þvaglátavandmál
  • Vandamál við hægðalosun
  • Blóðleysi vegna mikilla blæðinga
  • Ófrjósemi
  • Fósturlát
  • Önnur vandamál tengd þungun

 

Hverjir eru áhættuþættirnir fyrir að fá svona hnúta?

Helsta áhættan er að vera kona á frjósemisaldri. Aðrir þekktir áhættuþættir eru:

  • Fjölskyldusaga – meiri líkur ef móðir eða systir hefur sögu um hnúta
  • Kynþáttur – að vera þeldökk kona eykur líkurnar á að fá hnúta á yngri árum. Einnig eru þeldökkar konur oftar með flóknari hnúta ( stærri, margir)
  • Óheilbrigður lífstíll – að borða rautt kjöt, drekka mikið áfengi og borða minna af ávextum og grænmeti eykur líkurnar á því að fá vöðvahnúta. D-vítamín skortur er einnig tengdur aukinni áhættu.
  • Ofþyngd – fita bindur meira estrogen og því eru konur með aukinn fituforða í áhættu á að fá bæði góðkynja fyrirferðir í legið sem og legbolskrabbamein.

 

Hver eru einkennin?

Kona með litla hnúta er oft algjörlega einkennalaus. Ef þeir eru aftur á móti staðsettir inni í legholinu eða bjagar það til veldur það oft

  • Auknum blæðingum
  • Ófrjósemi og fósturlátum.

Ef kona er með stóran hnút/hnúta eru algengara að hún sé að finna fyrir einkennum

  • Enn meiri blæðingar
  • Útþaninn kviður
  • Endurtekin þvaglát
  • Hægðatregða
  • Verkir við kynlíf
  • Verkur neðarlega í baki.

 

Hvernig eru svona hnútar greindir?

  • Hefðbundin kvenskoðun: Yfirleitt er hægt að greina vöðvahnúta í hefðbundinni kvenskoðun, sér í lagi ef notað er ómtæki við skoðunina.
  • Blóðprufa – Sumar konur blæða mikið og getur það valdið blóðleysi og járnskorti.
  • Segulómskoðun – Í sumum tilfellum getur verið erfitt að fullmeta stærð eða fjölda hnúta í hefðbundinni kvenskoðun og þá er gerð segulómskoðun af grindarholi sem sýnir líffærin þar mjög vel. Hentar t.d. vel þegar hnútar eru margir eða mjög stórir.
  • Legspeglun ( hysteroscopy) – Ef skoða þarf grun um hnút innan í leginu betur er myndavél sett upp í gegnum leghálsinn og þá sér læknirinn legholið að innan. Þetta er gert í stuttri svæfingu. Í sumum tilfellum er hægt að fjarlægja slíka hnúta í leiðinni.
  • Röntgenmyndataka af legholi ( hysterosalpingography ) – Röntgenmyndataka af legholinu sem sýnir vel hvort eitthvað aflagi það. Ekki hægt að fjarlægja hnúta með slíkri rannsókn. Sjaldnast gert hér á landi til greiningar á þessu.

 

Hvers vegna er þetta svona algengt?

Legið er búið til úr vöðva og er eini vöðvi líkamans sem getur fjölgað vöðvafrumunum sínum eftir að maður verður fullorðinn en ekki bara stækkað þær. Eðlilegt leg er í kringum 70 g að þyngd ef kona hefur ekki átt barn en við meðgöngu þá bæði stækka frumurnar og fjölga sér til að legið geti þanist nógu mikið upp svo fullburða barn komist fyrir í því. Yfirleitt er leg strax eftir fæðingu í kringum 1 kg á þyngd en á næstu 6 vikum minnkar það aftur og endar í kringum 80 g.

Vegna þessa eiginleika að geta fjölgað frumunum sínum hefur það mikla tilhneygingu til að mynda góðkynja hnúta í kjölfarið. Auk þess eru frumur í leginu hormónanæmar og tíðarhringur kvenna veldur því að hormón hækka og lækka til skiptis sem hefur einnig þessi örvandi áhrif á legvöðvafrumurnar.

 

Hvernig eru svona hnútar meðhöndlaðir?

Eingöngu 10-20% af hnútum þurfa meðhöndlun. Hin 80% + þurfa enga meðhöndlun þar sem þeir valda engum teljandi vandræðum.

Hvert tilfelli er metið í hvert sinn og ef þörf er á meðferð er hún veitt.

Helsta vandamálið með svona hnúta er að þar sem þeir eru úr vöðvafrumum eins og legið þá eru þeir með hormónaviðtaka eins og legið og því hafa hormón vaxtaraukandi áhrif á þá.

Yfirleitt er því besta leiðin til að halda svona hnútum niðri sú að vera á getnaðarvörn sem lækkar hormónamagn líkamans og það hemur því eitthvað vöxt. Yfirleitt virkar allar hormónagetnaðarvarnir að einhverju leyti svona en koparlykkja væri ekki ráðlögð þar sem hún eykur blæðingar sem er kannski ekki það sem hentar.

Einnig getur verið gott að taka ekki pásu t.d á pillunni því þá koma ekki eins oft blæðingar og það hemur eitthvað vöxt þessara hnúta

Hormónalykkjan getur verið mjög góður kostur einnig þar sem hún yfirleitt hemur blæðingar til lengri tíma og ef kona t.d. greinist með hnúta ung og fyrir barneign er til mikils að vinna að reyna að hægja á þeim til að viðhalda frjósemi. Kona getur svo látið taka lykkjuna hvenær sem hún vill verða þunguð en ef hnútarnir fá að stækka óáreittir þá eykur það líkur á vandræðum með að verða þunguð. Hvort sú áhætta er til staðar og þá hversu mikil hún er fer algjörlega eftir stærð og staðsetningu hnúta. Ef þeir eru utan á leginu hefur það lítil sem engin áhrif á þungunarlíkur en ef þeir bjaga til legholið eða eru á stilk inni í legholinu þá getur þetta haft talsverð áhrif. Best er að ræða þetta við sinn lækni og fá úr því skorið nákvæmlega hvar viðkomandi hnútar eru til að meta hvort þetta sé eitthvað til að hafa áhyggjur af.

Stundum eru svona hnútar að valda það miklum vandræðum með blæðingar, verki og þrýsting að lyf ná ekki að laga einkennin og þá er oft eina leiðin að fjarlægja þá.

Ef kona hefur lokið barneign er yfirleitt ráðlagt að fjarlægja legið en það fer þó algjörlega eftir staðsetningu og stærð. Ef þeir eru í miðjum legvöðvanum er aðgerðin tæknilega áhættumeiri ef reynt er að taka bara hnútinn útaf blæðingarhættu en ef þeir eru á stilk þá eru meiri líkur á að hægt sé að fjarlægja bara hnútinn en ekki allt legið.

Reynt er að forðast aðgerð hjá konum sem hafa ekki lokið barneign ef hægt er þar sem fylgikvilli aðgerðarinnar getur verið að kona missi legið ( þá oftast útaf blæðingu í aðgerð) sem maður vill skiljanlega ekki lenda í ef þungunarósk er til staðar.

Lyf sem notuð voru á tímabili sem eiga að minnka svona hnúta ( Esmya) hafa ekki sýnt að þau geri það gagn sem talið var og því eru þau sjaldnast notuð. Einstaka sinnum eru þau notuð fyrir aðgerð til að freista þess að minnka hnútana fyrir aðgerðina ( en þeir stækka yfirleitt alltaf aftur eftir að kona hættir á þeim og því eru þeir ekki notaðir ef kona er ekki á leið í aðgerð).

Best er að fara reglulega í skoðun til kvensjúkdómalæknis og þá er hægt að fylgjast með svona hnútum og ef þeir greinast er yfirleitt hægt að fylgja þeim eftir í lengri tíma án meðferðar. Það tekur langan tíma fyrir þá að myndast svo yfirleitt er nóg að fara í skoðun á ca þriggja ára fresti ef allt lítur eðlilega út. Ef þeir greinast snemma er auðvelt að halda þeim í skefjum með hormónagetnaðarvörnum en annars er gripið til ráðstafana eins og að ofan er talið ef þörf er á.

 

Athugið að þessi texti er eign Domus Lækna ehf og má ekki afrita nema með leyfi.