Minnkuð kynlöngun kvenna
Minnkuð kynlöngun eða kynhvöt er eitthvað sem margar konur finna fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni, stundum bara yfir stutt tímabil en getur einnig varað yfir lengri tíma eða aldursskeið.
Með minnkaðri kynlöngun er átt við minnkaðan áhuga á að stunda kynlíf eða sjálfsfróun og/eða að upplifa ekki hugsanir og né langanir tengdar kynlífi.
Fjölmargir þættir spila inn í kynlöngun.
Hormónar/hormónabreytingar, sálrænir þættir, líkamlegir þættir, vandamál í sambandi, lífstíls þættir og lyf getur allt haft áhrif.
Hormónar / hormónabreytingar
Kynlöngun kvenna og karla er mismunandi en við mannkynið erum einu dýrin sem stunda kynlíf okkur til ánægju en ekki eingöngu til fjölgunar.
Löngunin til að stunda kynlíf er nátengd möguleikanum á þungun og er því mest hjá konum dagana í kringum egglos. Oftast eru konur með egglos einu sinni í mánuði og þal er þeirra kynlöngun sterkust nokkra daga þar á undan og fram að egglosi. Það er hormónastýrt og fylgir uppbyggingu slímhúðar í leginu til að taka á móti frjóvguðu eggi.
Karlmenn hins vegar mynda sáðfrumur á hverjum degi og því er þeirra kynlöngun jafnari yfir flesta daga í hverjum mánuði.
Af þessari ástæðu dregur einnig oft úr kynlöngun kvenna þegar þær byrja á breytingaskeiðinu og/eða eru komnar framyfir tíðarhvörf þar sem möguleiki á þungun er minni eða ekki lengur til staðar. Á þessu tímabili finna margar konur einnig fyrir auknum þurrk í leggöngum sem getur valdið óþægindum við kynlíf og þannig minnkað áhuga kvenna til að stunda samfarir.
Margar konur finna fyrir aukinni kynlöngun á meðgöngu og er það tengt auknu magni á hormóninu prolaktin, sem eykst á meðgöngu.
Sálrænir þættir
Þunglyndi, kvíði, lágt sjálfstraust, léleg sjálfsmynd, álag og streita sem og fyrri slæm reynsla af kynlífi eða kynferðislegt ofbeldi geta haft mikil áhrif á löngun til að stunda kynlíf.
Líkamlegir þættir
Nýlegar aðgerðir (t.d. legnám, aðgerð vegna blöðrusigs ofl), særindi við kynlíf (t.d. v/ sveppasýkingar, þurrks í leggöngum), taugasjúkdómar, háþrýstingur, offita, sykursýki og gigt svo eitthvað sé nefnt getur haft áhrif á líkamlega getu og upplifun í kynlífi og þannig á kynlöngun.
Vandamál í sambandi
Að eiga í góðu sambandi við maka sinn er grundvallaratriði þegar kemur að kynlífi. Ósætti, öryggistilfinning og traust til maka eru stórir þættir sem hafa áhrif á löngun til kynlífs. Hversu mikið maður laðast að maka sínum skiptir einnig máli.
Lífstíls þættir
Óhófleg áfengisneysla, reykingar, vape og fíkniefni geta valdið minnkaðri kynlöngun. Svefnleysi og þreyta, hreyfingaleysi og óhollt mataræði hefur einnig verið sýnt tengjast minnkaðri kynlöngun.
Lyf
Ef þú ert nýbyrjuð að taka nýtt lyf og finnur breytingu á kynlöngun gæti það verið tengt lyfinu. Oft er hægt að finna upplýsingar um slíkan möguleika í fylgiseðlinum sem fylgir lyfinu eða leitað upplýsinga hjá þínum lækni. Ef ástæðan gæti verið hið nýja lyf skaltu ræða við lækninn þinn hvort hugsanlega væri hægt að velja annað lyf í staðinn.
Lyf geta haft áhrif á ýmsa líkamsstarfsemi og þannig óbeint á kynlöngun, t.d. lyf sem valda þurrki í leggöngum, minnkuðu blóðflæði/blóðþrýstingi, lyf sem hafa áhrif á hormón sem stýra skapi/andlegri líðan eða bein áhrif á hormón sem stýra kynlöngun.
Þau lyf sem geta haft letjandi áhrif á kynlöngun hafa helst áhrif á þrjú mismunandi hormón í líkamanum: serotonin, prolaktin og testosteron. Helstu lyfjaflokkar sem hafa áhrif á þessi hormón eru taugalyf (t.d. flogaveikilyf) og þunglyndis/kvíðalyf, hjarta- og blóðþrýstingslyf, hormónalyf, verkjalyf, steralyf og krabbameinslyf.
Ýmis ólyfseðilsskyld lyf geta einnig haft áhrif á kynlöngun eins og t.d. sveppalyf og ofnæmislyf.
Ræddu við þinn lækni eða sálfræðing til að fá viðeigandi aðstoð.
Einnig er hægt að leita ráðgjafar hjá kynlífs- og/eða pararáðgjafa.
Það getur verið erfitt að upplifa og takast á við minnkaða kynlöngun, andlega og líkamlega, og oft erfitt að ræða hlutina opinskátt. Mikilvægt er þó að gefast ekki upp því oftast er hægt að bæta kynlöngunina aftur þó það geti krafist töluverðrar vinnu og þolinmæði.
Einnig þarf að muna að kynlíf á ekki að snúast eingöngu um samfarir og mikilvægt er að byggja upp gott samband og nánd við maka
Athugið að þessi texti er eign Domus Lækna ehf og má ekki afrita nema með leyfi.