Mirena hormónalykkja
Til eru tvær gerðir af lykkjum, koparlykkjur og hormónalykkjur. Mismunandi undirtýpur eru til af hvorri um sig en flestar konur á Íslandi eru með hormónalykkju og af þeim týpum sem til eru hefur Mirena verið hvað vinsælust síðustu ár.
Hún er fyrst og fremst getnaðarvörn sem er mjög örugg og þægileg en mjög algeng og hentug aukaverkun af henni eru minnkaðar blæðingar.
Hún er því stundum notuð hjá konum með miklar blæðingar þó að þær þurfi ekki getnaðarvörn.
Hormónalykkja virkar þannig að í henni er eitt hormón, levonorgestrel sem er ein týpa af prógesteróni. Það er hormón sem er myndað í eggjastokkunum eftir að egg hefur losnað og undirbýr slímhúðina fyrir komu frjógvaðs eggs.
Þegar þetta hormón er tekið inn í töfluformi eða í formi lykkju sem er staðbundin í leginu þá hefur þetta þau áhrif á legslímuna að hún þykknar ekki heldur helst þunn og fósturvísir getur ekki fest sig í henni.
Þetta litla T-lagaða plaststykki er sett uppí legið til að koma í veg fyrir þungun. Skv nýjustu rannsóknum er hún örugg sem getnaðarvörn í allt að 7 ár ( Sjá niðurstöður rannsókna)
Hvers vegna er hún góð getnaðarvörn?
Mirena er frábær getnaðarvörn því hún er mjög örugg og svo er hægt að snúa við virkni hennar um leið og hún er tekin og því geta konur stjórnað sinni frjósemi. Um leið og lykkjan er farin er frjósemin komin í eðlilegt horf. Af öllum hormónagetnaðarvörnum er þetta sú sem gefur minnst hormón frá sér.
Ekki bara getnaðarvörn heldur gagnleg gegn miklum blæðingum
Ef þú ert með miklar blæðingar er Mirena oft góður kostur til að minnka þær án skurðaðgerðar. Árið 2009 samþykkti lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) að Mirena væri með ábendingu sem getnaðarvörn og einnig sem blæðingarmeðferð. Enn í dag er þetta sú lyfjameðferð sem virkar best gegn miklum blæðingum. Áhrif á blæðingar fara oft minnkandi eftir 5 ár samkvæmt framleiðanda og ætti því að skipta henni út í lok 5.ársins ef ósk er um að hún haldi áfram að minnka blæðingar. Ef kona er enn því sem næst blæðingarlaus á þeim tíma má að sjálfsögðu bíða með skipti.
Til eru aðrar hormónalykkjur hér á landi ( Jaydess og Kyleena meðal annars) en þær eru jafn öruggar sem getnaðavörn en eru ekki samþykktar af FDA gegn miklum blæðingum þar sem hormónamagnið í þeim er of lágt til að tryggja minni blæðingar.
Hversu margar konur eru með miklar blæðingar?
Talið er að 9-14% heilbrigðra kvenna eru með miklar blæðingar. Það þýðir að kona tapar ca 5-6 matskeiðum af blóði í einum tíðarhring. Meðal blæðingar flokkast sem blóðtap uppá 2-3 matskeiðar. Miklar blæðingar geta leitt til blóðleysis og annara vandamála.
Einkenni mikilla blæðinga
Það getur verið erfitt að áætla hversu mikið þú blæðir í einum tíðahring. Eftirfarandi einkenni benda til þess að þú sért að falla í hóp þeirra sem blæðir mikið:
- Blæðir í gegnum tappa/bindi á 2-3 klst fresti
- Þú ert endurtekið að blæða í föt/rúmföt
- Þarft að vakna um miðja nótt til að skipta um tappa/bindi
- Ert með tappa/bikar og bindi ( tvöföld vörn)
Hvernig virkar hún gegn miklum blæðingum?
Prógesterónið í lykkjunni veldur því að slímhúðin inni í leginu þykknar lítið sem ekkert og því verða blæðingar í hverjum mánuði mun minni og að lokum oft engar.
Yfirleitt eru blæðingar óreglulegar til að byrja með en í kringum 80% kvenna eru með mun minni blæðingar 4 mánuðum eftir að lykkjan er sett upp og ári eftir uppsetningu eru 95% kvenna með mun minni blæðingar. Sumar alveg blæðingarlausar.
Flestar konur finna að blæðingar minnka eftir 3-6 mánuði.
Milliblæðingar fyrstu mánuðina
Milliblæðingar eru mjög algengar í upphafi og því er þörf á þolinmæði. Það er yfirleitt eitthvað sem gengur yfir innan 6 mánaða. Þessar milliblæðingar geta aftur á móti verið mjög þreytandi og valdið því að það blæðir smá og smá alla daga í margar vikur. Ef þetta er óvenjulega mikið ( blæðir eins og á venjulegum blæðingum en ekki bara blettablæðingar) eða hefur varað meira en ca 2 mánuði má hafa samband við sinn lækni þar sem hægt er að gefa hormónatöflur með lykkjunni tímabundið til að mögulega flýta fyrir að þessar blæðingartruflanir gangi yfir. Yfirleitt gengur þetta sem fyrr segir yfir á 6 mánuðum en getur varað í allt að 12 mánuði. Hjá einstaka konum er þetta áfram vandamál og þá er mögulegt að lykkjan sé ekki að henta viðkomandi og er það því mat læknis með konu hvort það sé best að fjarlægja hana.
Hvernig virkar hún sem getnaðarvörn ?
Hormónalykkjan er mjög örugg. Kemur í veg fyrir þungun í 99,8% tilfella sem þýðir að ef 1000 konur eru með hana eru tvær sem verða óléttar per ár sem hún er í notkun upp í sjö ár. Þetta er öruggasta getnaðarvörn sem hægt er að fá.
Hún kemur í veg fyrir þungun með því að þynna slímhúð legsins og einnig með því að þykkja útferð frá leghálsi svo sæði kemst síður í gegn. Yfirleitt er lykkjan ekki að hafa nein teljandi áhrif á egglos og því er hormónastarfsemi konunnar nokkuð eðlileg sem flestum þykir góður kostur.
Í sumum tilfellum getur egglos orðið aðeins óreglulegt og til eru dæmi að konur geta fengið blöðrur á eggjastokka í kjölfarið en það er yfirleitt saklaust og slíkar blöðrur sem eru litlar hverfa nær alltaf að sjálfu sér án meðferðar.
Þess ber að geta að konur sem fá alltaf verki í kringum egglos og halda að það að vera á getnaðarvörn sé gott til að minnka slíka verki ( sem oft er mælt með) ættu ekki að fá sér hormónalykkju þar sem hún kemur sjaldnast í veg fyrir egglos.
Hvernig og hvenær er best að setja upp hormónalykkju?
Þar sem virkni hormónalykkjunnar er að halda legslímhúðinni þunnri er best að setja hana upp í lok blæðinga eða fyrstu dagana eftir að þær klárast. Þá er einnig leghálsinn aðeins opnari en aðra daga mánaðarins og því minni óþægindi sem fylgja uppsetningunni. Gott getur verið að taka bólgueyðandi verkjalyf fyrir tímann en það er ekki nauðsyn. Yfirleitt tekur aðeins örfáar mínútur að setja upp lykkju og konur finna fyrir vægum krampakenndum túrverkjum í kjölfarið sem ganga fljótt yfir. ( getur þó staðið í nokkra daga ). Hægt er að setja upp lykkju hjá konu sem hefur ekki átt börn en þá er algengara að notuð sé minni lykkja en Mirena ( Kyleena eða Jaydess) þó það sé líka hægt að nota Mirena sé planið að minnka blæðingar verulega.
Finnur konan sjálf eða maki fyrir lykkjunni?
Þegar lykkjan er sett upp fer hún hátt upp í legið og situr inní legholinu. Lykkjuendinn er því ca 3 cm frá leghálsopinu svo maki mun ekki geta fundið fyrir lykkjunni ef hún er staðsett rétt. Aftur á móti er þráður sem kemur úr lykkjunni sem er klipptur mislangur. Oftast er hann í kringum 1-2 cm niður úr leghálsopinu og þá getur maki fundið fyrir honum við samfarir. Reynt er að hafa þráðinn ekki of stuttann svo auðvelt sé að fjarlægja lykkjuna og í flestum tilfellum truflar þetta ekki kynlíf en ef þetta truflar má stytta hann. Ef þráðurinn er mjög stuttur getur verið aðeins erfiðara að fjarlægja hana. Flest allir kvensjúkdómalæknir geta þó fjarlægt slíka lykkju án vandræða.
Aukaverkanir:
- Óreglulegar blæðingar ( 32%)
- Minni blæðingar (23,4%)
- Auknar blæðingar ( 11,9%)
- Kvið/grindarverkir ( 22,6%)
- Engar blæðingar ( 18,4%)
- Höfuðverkur/mígreni ( 16,3%)
- Útferð ( 14,3%)
- Bakteríusýking (10,5%)
- Brjóstaspenna ( 8,5%)
- Bakverkur ( 7,9%)
- Góðkynja blöðrur á eggajastokka ( 7,5%)
- Bólur í húð ( 6,8%)
- Túrverkir ( 6,4%)
- Þunglyndi ( 6,4%)
- Þyngdarauking ( 7%)
Heimasíða framleiðanda Mirena
Athugið að þessi texti er eign Domus Lækna ehf og ekki má afrita hann nema með leyfi.