Getnaðarvarnarpillan
Getnaðarvörn er leið til að koma í veg fyrir þungun. Margar leiðir eru til en sú þekktasta og algengasta er svokallaða „pillan“.
Hvernig virkar pillan?
Þú verður ólétt þegar egg sem losnar frá eggjastokknum frjógvast af sæði. Frjógvaða eggið festir sig við vegg legsins að innan og þroskast í fóstur. Hormón í líkamanum stjórna því að egg losni frá eggjastokknum ( egglos) og svipuð hormón undirbúa líkamann til að geta tekið við frjógvuðu eggi.
Samsettar getnaðarvarnir ( pillan, hringurinn, plástur) innihalda tvö hormón, estrogen og prógesterón. Þegar þessi hormón eru tekin inn kemur það í veg fyrir þungun með nokkrum leiðum. Yfirleitt koma þau í veg fyrir að egglos verði. Þau breyta einnig leghálsútferðinni svo það verðuru erfiðara fyrir sæði að komast upp í legið sem og þau þynna slímhúðina í leginu svo frjógvað egg gæti síður fest sig við hana.
Mismunandi pillur eru til svo velja þarf þá sem hentar hverju sinni.
Hvaða týpur eru til af pillunni?
Flestir sem taka pilluna eru að taka samsetta pillu sem inniheldur tvö hormón, estrogen og prógesterón sem koma í veg fyrir að eggjastokkarnir losi egg og breyta einnig leghálsinum og legslímunni til að minnka líkur á þungun.
Önnur pilla er til sem kallast minipillan/brjóstapillan og hún inniheldur bara eitt hormón, prógesterón sem kemur í veg fyrir að sæði komist að egginu en kemur ekki í veg fyrir egglos.
Einnig er hægt að nota neyðarpillu ( Postinor ) ef óvarið kynlíf hefur átt sér stað en slík pilla inniheldur yfirleitt levonogestrel sem kemur í veg fyrir þungun með því að trufla hormónakerfið. ( 88% virkni ef tekin er innan 3ja sólarhringa). Slík pilla fæst í apótekum án lyfseðils.
Hverjir eru kostir samsettu pillunnar?
Það eru innan við 1% líkur á þungun ef þú tekur samsettu pilluna eins og þú átt að taka hana. Það þýðir að tekin er ein pilla á dag. Auðvelt er að snúa henni við með því að hætta að taka hana og kona getur orðið ólétt strax í næsta hring.
Samsetta pillan hefur aðra kosti auk þess að koma í veg fyrir þungun:
- Koma reglu á blæðingar og minnka túrverki ( oftast)
- Geta minnkað líkur á ákveðnum krabbameinum ( legháls, eggjastokka)
- Geta minnkað bólur í húð ( acne)
- Sumar týpur minnka einkenni fyrirtíðarspennu ( aðallega yasmin)
- Auðvelt að prufa sig áfram, ef konu líkar ekki við pilluna einfaldlega hættir maður að taka hana. Engin skuldbinding að þurfa að nota í ákveðinn tíma.
Hverjir eru ókostir pillunnar?
Helstu ókostir pillunnar eru að þurfa að muna eftir að taka hana alla daga á svipuðum tíma. Virkni hennar er háð því hvernig hún er tekin svo ef viðkomandi er mikið að gleyma henni er hún ekki eins örugg. Ef hún er tekin eins og á að taka hana er hún 99% örugg en almenn notkun sem tekur með í dæmið að stundum gleyma stelpur henni sýnir meira fram á ca 91% öryggi. Fyrir þann sem á erfitt með að muna eftir henni er því líklega betra að skoða aðrar getnaðarvarnir.
Eru allar samsettar pillur með sama hormónamagn?
Flestar samsettar pillur eru með 20-35ug af estrogeni ásamt því að vera með einhverja gerð af prógesteróni. Allar pillurnar eru með nákvæmlega eins estrogeni ( etinýlestradíól) en í mismunandi magni en prógesterónið er misjafnt milli pillutegunda.
Lægsti skammtur af estrogeni fæst með Harmonet og Mercilon pillum en slíkar pillur henta t.d. vel konum sem eru á breytingarskeiðinu þar sem þær geta minnkað einkenni hitakófa og óreglulegra blæðinga. Einnig eru veiku pillurnar mjög hentugar fyrir ungar stelpur þar sem hormónamagnið er lágt.
Samsettar pillur eru yfirleitt annaðhvort einfasa eða margfasa. Flestar pillur á Íslandi eru einfasa sem þýðir að allar pillurnar eru með sama hormónaskammti. Eina pillan sem er margfasa er Qlaira en hún hermir aðeins meira eftir náttúrulegum hring þar sem hormónin eru mismikil milli daga.
Báðar eru jafn öruggar mtt getnaðarvarnar en misjafnt er hvaða pilla hentar hvaða konu eftir því hvaða áhrif hún er að leita eftir. ( sumar pillur henta betur til að koma í veg fyrir bólur, aðrar betri við túrverkjum osfrv. ).
Hvað er minipillan?
Minipillan inniheldur bara eitt hormón, prógesterón. Þessi pilla hentar t.d. konum sem eru með barn á brjósti, mega ekki taka estrogen eða þola það illa vegna aukaverkana, t.d. ógleði.
Minipillan þykkir útferðina í leghálsinum svo sæði kemst ekki í gegn og kemst þar af leiðandi ekki að egginu. Hormónið þynnir einnig slímhúðina í leginu svo frjógvað egg á lítinn möguleika á að geta fest sig við slímhúðina og orðið að þungun.
Í sumum tilfellum kemur minipillan einnig í veg fyrir egglos. Þú tekur eina töflu alla daga án pásu.
Ef minipillan er notuð stöðugt og rétt þá er hún ca 95% örugg, aðeins minna öryggi en samsetta pillan ( 99% örugg ef tekin rétt).
Hvernig er pillan tekin?
Pillan kemur annaðhvort í þynnupakkningum sem innihalda 21 pillu eða 28 pillur. Ef 21 pilla er á spjaldinu eru yfirleitt allar pillurnar eins en ef fleiri pillur eru í spjaldinu eru yfirleitt nokkrar pillur sykurpillur sem innihalda engin hormón og koma blæðingar í kjölfarið þegar þær eru teknar en sumum þykir þægilegra að taka pillu alla daga og því eru slíkar pillur stundum notaðar. Smá mismunur er á hormónamagni ef farið er útí tvífasískar pillur eins og Qlaira en þá eru 2 pillur hormónalausar og hinar með mismunandi hormónamagni. Engin pása er tekin á slíkum pillum.
Byrja má á pillunni hvenær sem er en yfirleitt er best að byrja í upphafi blæðinga ( 1.degi rauðra blæðinga) eða á 5.degi blæðinga en þá þarf að nota aðra vörn með í viku. Ef byrjað er á 1.degi blæðinga eru oft milliblæðingar til staðar fyrsta mánuðinn sem er sjaldgæfara ef maður byrjar á 5.degi blæðinga. Báðar leiðir eru jafn öruggar svo lengi sem önnur vörn er notuð með í viku en þetta ræðir viðkomandi við sinn lækni og finnur út hvað hentar best.
Einnig má byrja á pillunni þegar lengra er komið inní hringinn en þá þarf alltaf að nota aðra vörn með í viku og blæðingarnar jafna sig svo út þegar fyrstu 1-2 spjöldin eru búin.
Sumum þykir gott að byrja á pillunni á sunnudegi og þá eru blæðingar yfirleitt aldrei um helgi því þær yfirleitt byrja 2-3 dögum eftir síðustu pillu svo ef síðasta pilla er á laugardegi þá eru blæðingar yfirleitt búnar á fimmtudegi/föstudegi nokkrum dögum síðar og byrjað er á nýju spjaldi á sunnudegi. Hvaða aðferð er notuð er misjöfn eftir konum og eftir ráðleggingum læknis en þetta eru svona algengustu leiðirnar.
Ef fyrsta pillan er tekin á sunnudegi muntu alltaf byrja á nýju spjaldi á sunnudegi, alveg sama þó blæðingin í pásunni sé ekki búin, pásan má ALDREI vera lengri en 7 dagar.
Má ég sleppa pásunni?
Ekki er þörf á að taka „pásu“ í viku þegar maður er á pillunni eins og margir halda og „gamli skólinn“ segir. Ef tekin er pása koma blæðingar í pásunni því hormónamagnið í líkamanum dettur niður og það triggerar blæðingar. Ef maður heldur áfram án þess að taka pásu fellur hormónamagnið ekki niður og því ættu ekki að koma blæðinar.
Hormónamagnið í pillunni er afturá móti mjög lágt og algeng aukaverkun eru milliblæðingar ef maður gerir þetta sem yfirleitt verður betra og betra. Oft er góð leið að taka pilluna eins lengi og maður getur án þess að fá blæðingar og þegar/ef þær koma þá tekur maður pásu í max 7 daga. Við þetta klárast blæðingin frekar og maður getur svo byrjað aftur og reynt að taka hana eins lengi og hægt er þar til næstu blæðingar koma. Sumar konur geta tekið pilluna í 1,5 mánuð og þá koma blæðingar, aðarar í 6-12 mánuði og aldrei koma blæðingar og þá þarf ekki að taka neina pásu.
Hversu langt líður þar til pillan byrjar að virka sem getnaðarvörn?
Ef byrjað er á pillunni á 1.degi blæðinga á hún að vera örugg strax. Ef byrjað er seinna er þörf á annari getnaðarvörn í allavega 7 daga. Eftir það er hún örugg.
Ef ég gleymi að taka pilluna, hvað gerist þá?
Ef þú gleymir pillu þá tekur þú hana eins fljótt og þú manst eftir því. Ef hún hefur gleymst í heilan sólarhring þá tekuru 2 í einu þann dag. Ef þú gleymir henni í 2 daga þá tekuru 2 pillur á dag í 2 daga í röð og notar aðra getnaðarvörn með í viku.
Ef þú gleymir henni í meira en 2 daga er jafnvel gott að taka bara pásu því blæðingar munu að öllum líkindum byrja í þessari aukapásu nema þú hafir verið nýbúin með pásu. Í alla staði þarftu að nota aðra getnaðarvörn með í viku og eða hafa samband við lækni varðandi ráðleggingar.
Ef þú gleymir að taka minipilluna þá þarftu að nota aðra getnaðarvörn með í 48klst.
Hverjar eru aukaverkanir pillunnar?
Margar mögulegar aukaverkanir geta verið af pillunni eins og af öllum lyfjum en þær eru sjaldgæfar og yfirleitt saklausar. Má nefna:
- Ógleði
- Aum/bólgin brjóst
- Milliblæðingar
- Minni blæðingar ( kostur fyrir flestar)
- Skapbreytingar
- Vægur höfuðverkur
Hættulegri aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar en ef þú finnur fyrir þeim áttu að hafa samband við lækni sem fyrst. Þær eru meðal annars:
- Brjóstverkur
- Slæmur höfuðverkur
- Sjóntruflanir
- Bólga í kálfum/lærum.
Ef blæðir í gegnum pilluna má taka tvær pillur í einu í 5 daga og þá stundum hættir blæðingin. Í kjölfarið er svo aftur farið í að taka eina á dag. Ef það virkar ekki er best að taka pásu í viku og byrja svo aftur.
Algengasta spurningin um pilluna er hvort hún sé ekki oft að valda blóðtappa. Sú aukaverkun er til staðar en hún er MJÖG sjaldgæf.
Til viðmiðunar:
Ef teknar eru 10.000 konur á aldrinum 15-35 ára eru líkur á blóðtappa eftirfarandi:
- Engin er á pillu- 3 af 10.000 fá blóðtappa per ár. ( 9997 fá ekki blóðtappa)
- Microgyn pilla- 5 af 10.000 fá blóðtappa per ár. ( 9995 fá ekki blóðtappa)
- Yasmin pilla – 7 af 10.000 fá blóðtappa per ár. ( 9993 fá ekki blóðtappa)
- Diane mite pilla – 11 af 10.000 fá blóðtappa per ár. ( 9989 fá ekki blóðtappa).
Allar þær sem fá blóðtappa eru yfirleitt með einhverja áhættuþætti, ekki endilega þekktir fyrirfram en líkurnar hjá hraustum grönnum konum eru mjög litlar.
Áhætta fyrir blóðtappa eru: ofþyngd, fjölskyldusaga, reykingar, fyrri saga, blóðstorkusjúkdómar.
Til samanburðar eru líkur á blóðtappa í snemmþungun 5x meiri en hjá óþungaðri konu.
Hver ætti ekki að taka getnaðarvarnarpilluna?
Flest allar konur mega taka pilluna. Ef kona reykir ekki mega felstar taka hana fram yfir tíðarhvörf.
Frábendingar eru
- Saga um blóðtappa í fótum/lungum
- Alvarlegur hjarta/lifrarsjúkdómur
- Saga um brjósta eða legkrabbamein
- Ómeðhöndlaður hár blóðþrýstingur
- Mígreni með fyrirboða
- Reykingar
- Aldur yfir 35 ára nema engir aðrir áhættuþættir séu til staðar þá er yfirleitt í lagi að nota hana
Má taka önnur lyf með pillunni?
Sum lyf eins og sýklalyf og flogaveikilyf geta gert pilluna minna örugga. Farðu yfir öll lyf með þínum lækni til að fullvissa um að þú sért á réttri getnaðarvörn og hún henti þér.
Eru til önnur lyf með sömu virkni og pillan en krefst ekki þess að taka pillu daglega?
Samsett getnaðarvörn eins og pillan er einnig til í formi plásturs og hrings. Plásturinn sem fæst á Íslandi kallast Evra og hringurinn Nuvaring.
Þessar getnaðarvarnir virka alveg eins og pillan nema hormónin fara í gegnum húðina og beint í blóðrásina ( plásturinn) eða frá leggöngum og beint í blóðrás ( hringurinn).
Þetta hentar vel þeim sem þykir erfitt að muna eftir pillunni og hormónalosunin verður ef eitthvað er jafnari en að taka pilluna. Báðar þessar getnaðarvarnir má nota eins og pilluna, þeas það má taka pásu 1x í mánuði og fara á blæðingar eða sleppa pásu og þá yfirleitt getur maður sleppt blæðingum.
Hver hringur dugar í 3 vikur svo þá verður að skipta og setja nýjan en plásturinn dugar í 1 viku og settur er því nýr vikulega.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu lyfju.is sem er vísað í hér að ofan.
Athugið að þessi texti er eign Domus Lækna ehf og ekki má afrita nema með leyfi.